Námskeiðin

Þetta eru þau námskeið sem bjóðast nemendum árið 2021. Hægt er að velja að sitja aðeins eitt námskeið eða öll, allt eftir því hvað nemandinn telur henta sér. Öll námskeiðin eru batatengd, studd vísindalegum rannsóknum og bæði samin og flutt af tveimur umsjónarmönnum, annars vegar sérfræðingi á sviði viðkomandi námskeiðs og hins vegar jafningafræðara með reynslu af geðrænum áskorunum. Námið er tvær annir í heild sinni. 

Námskeiðin:

samvinnsla.JPG

Velkomin í Bataskólann
Stutt námskeið þar sem verkefnisstjórar Bataskólans, þau Dagur Jóhannsson og Sigrún Sigurðardóttir fara yfir námið, hvernig skólinn er hugsaður og hvernig nemendur geta nýtt sér námið sem best. Einnig verður fjallað um hvernig nemendur koma sjálfir til með að móta námið og skólann með því að setja fram sínar skoðanir á námskeiðunum og velja þau námskeið sem kennd verða á seinni önn. Rætt er um gagnrýna hugsun og vísindi, auk þess sem nemendur kynnast námsstílum og námshringnum. Mælt er með því að allir nemendur velji sér þetta inngangsnámskeið.
Lengd námskeiðs: Eitt skipti, tvær klukkustundir.


Vellíðan og heilsa

Helga Arnardóttir og Markús Karl Torfason fjalla um heilsu, hamingju og vellíðan út frá ýmsum sjónarhornum. Hvers vegna þurfum við að gæta að því að sofa nóg, borða fjölbreytilegan og hollan mat og hreyfa okkur á þann hátt sem hentar hverjum og einum? Skemmtilegt námskeið á jákvæðu nótunum sem hentar öllum. Tilgangur námskeiðsins er að nemendur geti skilgreint hvata og hugarfar og borið kennsl á áhrif þeirra á hegðun og líðan. Eitt af megin markmiðum námskeiðsins er að hvetja nemendur til hreyfingar og að þeir læri aðferðir til að hafa áhrif á sitt eigið hugarfar t.d. með því að skipuleggja sig og skoða hvaða hreyfing er í boði.

Lengd námskeiðs: 6 vikur, tvær klukkustundir í senn.


Helga og markus

Batahugmyndfræðin – Hentar hún þér?

Bataskóla Íslands er grundvallaður á batamiðaðri hugmyndafræði sem hefur átt sívaxandi vinsældum að fagna síðustu áratugi víða um heim en kjarni hennar er að byggja á þeirri reynslu sem fólk með geðrænar áskoranir hefur notað til þess að lifa ánægjulegu og fullnægjandi lífi. Einblínt á það að skoða hvað kom fyrir en ekki hvað er að fólki. Farið verður í meginhugtök Batahugmyndafræðinnar, réttindi og samfélagsúrræði ásamt því að nemendur skilji væntingar sínar og stöðu gagnvart Batahugmyndafræðinni. Gestafyrirlesari kemur og segir sína sögu. Fræðandi og sjálfseflandi námskeið.
Umsjónarmenn eru Hrannar Jónsson og Rafn Haraldur Rafnsson.
Lengd námskeiðs: 6 vikur, tvær klukkustundir í senn.


hrannarografn

Losaðu um hnútinn – Lærðu að takast á við kvíða
Sigrún Sigurðardóttir og Maren Ósk Elíasdóttir eru umsjónarmenn þessa námskeiðs sem fjallar um eðli kvíðans og hvernig hægt er að finna leiðir til þess að láta kvíðann ekki stjórna lífi sínu og ákvörðunum. Með jákvæðni og opnu hugarfari er okkur ekkert ómögulegt. Tilgangur námskeiðsins er að nemendur öðlist betri skilning á kvíða og að hann sé eðlilegur og jafnvel hjálplegur.
Lengd námskeiðs: 6 vikur, tvær klukkustundir í senn.

Sjálfstraust og samskipti
Aðalbjörg S. Helgadóttir hefur langa reynslu af því að kenna fólki aðferðir til þess að byggja upp sjálftraust sitt og bæta samskiptahæfileika sína. Hún er umsjónarmanneskja þessa námskeiðs ásamt Hafdísi Huld Þórólfsdóttur sem einnig hefur af mikilli og jákvæðri reynslu að miðla. Markmiðið er að nemar byggi upp sjálfstraust sitt og bæti samskiptahæfileika sína ásamt því að geta borið kennsl á mismunandi tegundir samskipta. Spennandi námskeið sem getur breytt miklu í lífi fólks.
Lengd námskeiðs: 5 vikur, tvær klukkustundir í senn.

Þekktu þunglyndið - taktu í tauminn
Þunglyndi er alvarlegur og algengur sjúkdómur sem ekki fer í manngreinarálit og allir geta lent í að upplifa einhvern tímann á æviskeiði sínu. Það er hins vegar margt sem hægt er að gera til þess að sporna gegn þunglyndi, þar á meðal að læra að þekkja einkennin, koma sér upp leiðum og góðum ráðum til þess að koma sér úr þunglyndi og finna aftur gleðina í lífi sínu. Tilvalið námskeið fyrir alla til að öðlast betra líf.
Umsjónamenn námskeiðsins eru Soffía Hrönn Halldórudóttir og Bjarni Kristinn Gunnarsson.
Lengd námskeiðis: 5 vikur, tvær klukkustundir í senn.

Geðrof - ekki eins klikkað og þið haldið
Hvað er geðrof? Þau Tómas Kristjánsson og Sigrún Sigurðardóttir ætla að fræða okkur um geðrofseinkenni á skemmtilegan hátt á þessu stutta en áhugaverða námskeiði. Tilgangur námskeiðsins er að fólk fái skýrari sýn á hvað geðrof er, hvers vegna fólk upplifir geðrofseinkenni, við fáum sjónarhorn nemenda og förum yfir bjargráð.
Fræðandi námskeið fyrir þá sem hafa upplifað geðrof, aðstandendur eða fyrir þá sem vilja fræðast um geðrof.
Lengd námskeiðis: eitt skipti, tvær klukkustundir.

Undirbúningur jóla - kennt á haustönn

Þetta stutta námskeið fjallar um hvernig við getum fengið sem mesta gleði og ánægju út úr jólunum og leitt hjá okkur ýmsa streituvalda sem hátíðinni fylgja. Umsjónamenn námskeiðsins eru Helga Arnardóttir og Hafdís Huld Þórólfsdóttir.
Lengd námskeiðis: eitt skipti, tvær klukkustundir.

Hvað er þetta ADHD?
Á námskeiðinu er farið yfir helstu einkenni ADHD og mikilvægar mismunagreiningar. Auk þess að fara í gegnum afhverju greining er mikilvæg og hvar er hægt að fá greiningu. Nemendur læra ýmis minnisaðferðir og gagnleg forrit og leiki til að efla minnisgetu. Umsjónarmenn námskeiðsins eru Drífa Björk Guðmundsdóttir og Áslaug María Agnarsdóttir.
Lengd námskeiðs: 2 vikur, 2 klukkustundir í senn. 

Dagbókarnámskeið
Námskeiðið er byggt á dagbókinni (Munum) eftir Erlu Björnsdóttur og Þóru Hrund Guðbrandsdóttur. Markmiðið er að auðvelda markmiðasetningu, tímastjórnun, auka yfirsýn, efla jákvæða hugsun og hvetja til framkvæmda. Unnið er að því að setja upp markmið fyrir árið ásamt því að kenna leiðir til forgangsröðunar og auka skipulag. Skemmtilegt námskeið fyrir þá sem vilja líta yfir farinn veg og skoða hvað hægt sé að bæta í skipulaginu. Umsjónarmenn eru Áslaug María Agnarsdóttir og Erla Björnsdóttir.
Lengd námskeiðs: 2 vikur, tvær klukkustundir í senn.

Erla og Aslaug

Svefnnámskeið
Svefn er öllum mikilvægur þar sem líkaminn hvílist og endurnýjar sig. Í námskeiðinu verður svefn skoðaður frá ýmsum hliðum, farið yfir svefnvenjur og þann vanda sem um ræðir. Markmiðið er að skoða það sem mestu skiptir til þess að fá góðan svefn. Umsjónarmenn eru Áslaug María Agnarsdóttir og Erla Björnsdóttir.
Lengd námskeiðs: 3 vikur, tvær klukkustundir í senn.

Minnisnámskeið - Hvar er húfan mín, hvar er hettan mín?
Námskeiðið er ætlað þeim sem vilja læra að nýta sér mismunandi minnistækni. Lagt er upp úr því að fara yfir helstu minnisþætti og að nemar deili reynslu sinni og vinni saman við að finna lausnir að vandanum. Farið verður yfir atriði sem hægt er að gera til þess að muna betur. Umsjónarmenn Inga María Ólafsdóttir og Soffía Hrönn Halldórudóttir.
Lengd námskeiðs: 1-2 vikur, tvær klukkustundir í senn.

Sköpun í listum og lífi
Kafað ofan í hvað listsköpun er í raun og skoðað hvernig hver og einn er skapandi á degi hverjum. Ýmsar leiðir listrænnar sköpunar og tjáningar verða kynntar á þessu námskeiði og samband þeirra við bata frá geðrænum áskorunum. Gestafyrirlesari kemur og segir sögu sína og reynslu í þessu sambandi. Allir hafa hæfileika til að skapa. Umsjónarmenn Elísabet Lorange og Sigrún Sigurðardóttir.
Lengd námskeiðs: 5 vikur, tvær klukkustundir í senn.

elisabet og sigrun

Virkni í samfélaginu
Hafdís Huld Þórólfsdóttir og Bjarni Þór Pétursson kynna þau tæki og tól auk úrræða sem bjóðast fólki með geðrænar áskoranir til að auka virkni sína í samfélaginu. Fjallað er um markmiðasetningu, valdeflingu og áhugahvöt. Komið er inná mikilvægi þess að hver og einn finni sína eigin leið. Styrkjum hana með því að kynna fjölbreytta möguleika. Að fólk finni að það hafi áhrif og að rödd þess heyrist með því að segja skoðun sína og setja mark sitt á viðfangsefnið. Horft er á áhugaverða kvikmynd um tengsl einstaklings við samfélagið og kerfið. Atvinnumarkaðurinn er krufinn, bent á samspil bata og virkni í tengslum við vinnu og farið yfir ýmsar leiðir til stuðnings fyrir þá sem þurfa aðstoð við að taka fyrstu skrefin í átt að henni. Að auki koma í heimsókn einstaklingar sem segja frá sinni persónulegu batareynslu og aðilar frá stöðum sem hafa sérhæft sig í að auka virkni og valdefla einstaklinga með geðrænar áskoranir.
Lengd námskeiðs: 5-6 vikur, tvær klukkustundir í senn.

Bjarni og Hafdís

Sjálfsumhyggja og núvitund
Á námskeiðinu fá nemendur tækifæri til þess að fræðast um núvitund og sjálfsumhyggju og um kosti þess að rækta þessa eiginleika með sér. Í hverjum tíma verða gerðar stuttar núvitundaræfingar sem hjálpa nemendum að auka færni sína í að hugleiða og rækta með sér núvitund og sjálfsumhyggju. Nemendur fá tækifæri til að ræða upplifun sína af því að gera æfingarnar og ræddar leiðir til að styðja við iðkun þeirra. Umsjónarmenn eru Helga Arnardóttir, Hrannar Jónsson og Markús Karl Torfason.
Lengd námskeiðs: 5 vikur, tvær klukkustundir í senn. 

Bati í mhverfinu
Í námskeiðinu er farið í það hvernig hægt er að nota náttúruna og þann frið sem þar er að finna til að öðlast meiri bata. Unnið verður að því að virkja nemendur í að uppgötva hvernig vera og skynjun í náttúrunni getur leitt til innihaldsríkara lífs. Gera má ráð fyrir talsverðri útivist í þessu námskeiði. Nýtum náttúruna í kringum okkur til þess að líða betur. Umsjónarmenn eru Hafdís Huld Þórólfsdóttir og Páll Líndal.
Lengd námskeiðs: 5 vikur, tvær klukkustundir í senn.

Húmor og bati
Margir þeir sem glímt hafa við geðrænar áskoranir af ýmsum toga hafa haft orð á því það geti verið mikil hjálp í því að hafa húmor fyrir lífinu og tilverunni. Á þessu létta og skemmtilega námskeiði fara þau Sigrún Sigurðardóttir og Þorsteinn Guðmundsson í gegnum ýmis atriði sem tengjast húmor, svo sem sögu húmors, hvernig sálfræðin greinir á milli ýmis konar húmorsstíla og hvernig við getum nýtt húmor og hlátur í daglega lífinu.
Lengd námskeiðs: 2-3 vikur, tvær klukkustundir í senn.
Batasögur
Hvað er bati? Hvaða merkingu hefur þetta orð í þínum huga og í þínu lífi?  Þetta er ein af spurningunum sem við veltum fyrir okkur í námskeiðinu Batasögur.  Í hverjum tíma eru kennarar með innlegg um bata, hvernig fólk hefur náð að vinna sig í gegnum erfiðleika og hvernig bati er ekki lokapunktur heldur ferli.  Við kynnumst hugmyndum úr fötlunarfræðum þar sem áherslan er á að skerðingar eru ekki eitthvað sem einstaklingurinn ber innra með sér heldur ástand sem samfélagið í heild á þátt í að skapa.  Nemendur vinna að sínum eigin batasögum í hverjum tíma og í lokin er uppskeruhátíð þar sem þeir sem vilja deila batasögum sínum fyrir hópinn.  Batasögur geta verið í allskonar formi, töluð frásögn, rapp, ljóð eða jafnvel teikningar.  Kennarar deila sinni eigin reynslu af bata og leggja áherslu á að í batasögum er ekkert eitt rétt eða rangt heldur eru þær tæki til að spegla sjálfan sig í eigin upplifun og vinna með sjálfsmyndina útfrá því. Námskeiðið var fyrst kennt á vorönn 2019 fyrir ungmennahópinn og nemendur sýndu mikið hugrekki í að deila persónulegum frásögnum og upplifðu mjög jákvæða reynslu af vinnu sinni í batasögunum. Umsjónarmenn: Gunnhildur Una Jónsdóttir og Hrannar Jónsson.
Lengd námskeiðs: 3-4 vikur, tvær klukkustundir í senn.

Prenta Netfang