Um skólann

Nám í Bataskólanum er ætlað fólki, 18 ára og eldri, með geðrænar áskoranir, aðstandum þeirra og starfsfólki á heilbrigðis- og velferðarsviði. Bataskólinn býður upp á úrval af skemmtilegum og fjölbreytilegum námskeiðum, samin af og flutt af fólki með mismunandi bakgrunn sem á það þó sameiginlegt að hafa brennandi áhuga á námsefninu. Engin próf eru í skólanum og einu kröfurnar sem gerðar eru til nemenda er jákvætt viðhorf og virðing fyrir starfsfólki og samnemendum. Í Bataskólanum ríkir alltaf góður andi og gagnkvæm virðing.

Námskeiðin sem nemendur geta valið úr eru öll batatengd og studd vísindalegum rannsóknum. Notendur og sérfræðingar semja þau saman, sem tryggir að raddir beggja heyrast. Umsjónarmenn námskeiða eru alltaf tveir, sérfræðingur á sviði efni námskeiðsins og jafningjafræðari sem er einstaklingur sem hefur reynslu af geðrænum áskorunum. Skólinn starfar eftir batamiðaðri hugmyndafræði að fyrirmynd Nottingham Recovery Collage.

Skólinn er staðsettur í húsnæði Menntavísindadeildar Háskóla Íslands að Stakkahlíð 1 (gengið inn aðalinngang og niður stigann hjá bókasafninu).

Námið nær yfir eitt skólaár, frá hausti fram á vor og velja nemendur þau námskeið sem þeir meta að komi þeim að gagni og þeir hafa áhuga á. Nemendur geta þannig valið öll námskeiðin eða bara fáein eftir því sem hentar. Kennt er á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum frá kl. 13:15 til 15:15 frá byrjun janúar til mars, mars til júní og frá september fram í desember.

 

Nám í skólanum er nemendum að kostnaðarlausu.

 

Helstu samstarfsaðilar Bataskólans eru:

Vinnumálastofnun

Landspítalinn

Háskóli Íslands

Háskólinn í Reykjavík

Samráðsvettvangur geðúrræða á höfuðborgarsvæðinu

Nottingham Recovery College

 

Bataskóli Íslands er samstarfsverkefni Geðhjálpar og Reykjavíkurborgar og fjármagnaður af Reykjavíkurborg, Velferðarráðuneytinu, Geðhjálp og fleiri aðilum. Skólinn er staðsettur á menntavísindadeild Háskóla Íslands í Stakkahlíð 1.

Stakkahlíð | Háskóli Íslands

Prenta