YFIRLIT YFIR ÖLL NÁMSKEIÐ BATASKÓLANS

Velkomin í Bataskólann

Kynning á skólanum og batahugmyndafræðinni sem hann byggir á. Fjallað er um hvernig nemendur móta sjálfir nám sitt í skólanum og fá stuðning við að setja sér markmið um það sem óskað er eftir að fá út úr náminu. Rætt er um gagnrýna hugsun og vísindi, auk þess sem nemendur kynnast ýmsum námsstílum. Mælt er með því að allir nemendur velji sér þetta inngangsnámskeið.

Lengd: 1 skipti, tvær klukkustundir.

Batahugmyndafræðin

Bataskólinn er grundvallaður á batamiðaðri hugmyndafræði sem hefur átt sívaxandi vinsældum að fagna síðustu áratugi víða um heim en kjarni hennar er að byggja á þeirri reynslu sem fólk með geðrænar áskoranir hefur notað til þess að lifa ánægjulegu og fullnægjandi lífi. Farið verður í meginhugtök batahugmyndafræðinnar, réttindi og samfélagsúrræði ásamt því að nemendur skilji væntingar sínar og stöðu gagnvart batahugmyndafræðinni.

Lengd: 6 skipti, tvær klukkustundir í senn.

Virkni í samfélaginu

Kynnt eru þau tæki og tól auk úrræða sem bjóðast fólki með geðrænar áskoranir til að auka virkni sína í samfélaginu. Fjallað er um markmiðasetningu, valdeflingu og áhugahvöt og komið er inn á mikilvægi þess að hver og einn finni sína eigin leið. Atvinnumarkaðurinn er krufinn, bent á samspil bata og virkni í tengslum við vinnu og farið yfir ýmsar leiðir til stuðnings fyrir þá sem þurfa aðstoð við að taka fyrstu skrefin í átt að henni.

Lengd: 5 skipti, tvær klukkustundir í senn.

Vellíðan og heilsa

Fjallað er um heilsu og vellíðan út frá ýmsum sjónarhornum, allt frá svefni, næringu og hreyfingu til styrkleika, hugleiðslu og streitustjórnunar. Skemmtilegt námskeið á jákvæðu nótunum sem hentar öllum. Tilgangur námskeiðsins er að nemendur geti skilgreint eigin hvata og hugarfar og borið kennsl á áhrif þeirra á hegðun og líðan og haft áhrif á eigin hvata og hugarfar til að styðja við heilsutengda hegðun í eigin lífi.

Lengd: 6 skipti, tvær klukkustundir í senn.

Sköpun í listum og lífi

Kafað ofan í hvað listsköpun er í raun og skoðað hvernig hver og einn er skapandi á degi hverjum. Ýmsar leiðir listrænnar sköpunar og tjáningar verða kynntar á þessu námskeiði og samband þeirra við bata frá geðrænum áskorunum. Gestafyrirlesari kemur og segir sögu sína og reynslu í þessu sambandi. Allir hafa hæfileika til að skapa.

Lengd: 5 skipti, tvær klukkustundir í senn.

Losaðu um hnútinn - lærðu að takast á við kvíða

Námskeið sem fjallar um einkenni og eðli kvíða og hvernig hægt er að finna leiðir til þess að láta kvíðann ekki stjórna lífi sínu og ákvörðunum. Með jákvæðni og opnu hugarfari er okkur ekkert ómögulegt. Tilgangur námskeiðsins er að nemendur öðlist betri skilning á kvíða og að hann sé eðlilegur og geti jafnvel verið hjálplegur.

Lengd: 6 skipti, tvær klukkustundir í senn.

Sjálfstraust og samskipti

Í þessu námskeiði er fjallað um aðferðir sem einstaklingar geta beitt til þess að byggja upp sjálftraust sitt og bæta samskiptahæfileika. Farið er í gegnum ýmsar skilgreiningar á samskiptum og fjallað um virkni og miðvirkni í samskiptum. Einnig er fjallað um sjálfstraust, sjálfsmynd, sjálfsþekkingu og sjálfsábyrgð og áhrif þessara þátta á samskipti.

Lengd: 5 skipti, tvær klukkustundir í senn.

Þekktu þunglyndið, taktu í tauminn

Þunglyndi er alvarlegur og algengur sjúkdómur sem ekki fer í manngreinarálit og allir geta lent í að upplifa einhvern tímann á æviskeiði sínu. Það er hins vegar margt sem hægt er að gera til þess að sporna gegn þunglyndi, þar á meðal að læra að þekkja einkennin, koma sér upp leiðum og góðum ráðum til þess að koma sér úr þunglyndi og finna aftur gleðina í lífi sínu. Tilvalið námskeið fyrir alla til að öðlast betra líf.

Lengd: 5 skipti, tvær klukkustundir í senn.

Geðrof, ekki eins klikkað og þið haldið

Hvað er geðrof? Fjallað um geðrofseinkenni á skemmtilegan og fræðandi hátt. Tilgangur námskeiðsins er að fólk fái skýrari sýn á hvað geðrof er, hvers vegna fólk upplifir geðrofs-einkenni, við fáum sjónarhorn nemenda og förum yfir bjargráð.
Fræðandi námskeið fyrir þá sem hafa upplifað geðrof, aðstandendur eða fyrir þá sem vilja fræðast um geðrof.

Lengd: 1 skipti, tvær klukkustundir í senn.

Hvað er þetta ADHD?

Á námskeiðinu er farið yfir helstu einkenni ADHD og mikilvægar mismunagreiningar. Auk þess að fara í gegnum af hverju greining er mikilvæg og hvar er hægt að fá greiningu. Nemendur læra minnisaðferðir og gagnleg forrit og leiki til að efla minnisgetu.

Lengd: 2 skipti, tvær klukkustundir í senn.

Svefnnámskeið

Svefn er öllum mikilvægur þar sem líkaminn hvílist og endurnýjar sig. Í námskeiðinu verður svefn skoðaður frá ýmsum hliðum, farið yfir svefnvenjur og ýmiss konar svefnvanda. Markmiðið er að skoða það sem mestu skiptir til þess að fá góðan svefn.

Lengd: 2 skipti, tvær klukkustundir í senn.

Allir geta lært

Á þessu námskeiði er fjallað um nám, námserfiðleika og ýmiss konar bjargráð sem geta hjálpað nemendum að komast yfir hindranir í námi. Gott námskeið fyrir alla sem vilja bæta námsfærni sína.

Lengd: 2 skipti, tvær klukkustundir í senn.

Sjálfsumhyggja og núvitund

Á námskeiðinu fá nemendur tækifæri til þess að fræðast um núvitund og sjálfsumhyggju og um kosti þess að rækta þessa eiginleika með sér. Í hverjum tíma verða gerðar stuttar núvitundaræfingar sem hjálpa nemendum að auka færni sína í að hugleiða og rækta með sér núvitund og sjálfsumhyggju. Nemendur fá tækifæri til að ræða upplifun sína af því að gera æfingarnar og ræddar leiðir til að styðja við iðkun þeirra.

Lengd: 5 skipti, tvær klukkustundir í senn.

Bati í umhverfinu

Í námskeiðinu er farið í það hvernig hægt er að nota náttúruna og þann frið sem þar er að finna til að öðlast meiri bata. Unnið verður að því að virkja nemendur í að uppgötva hvernig vera og skynjun í náttúrunni getur leitt til innihaldsríkara lífs. Gera má ráð fyrir talsverðri útivist í þessu námskeiði. Nýtum náttúruna í kringum okkur til þess að líða betur.

Lengd: 5 skipti, tvær klukkustundir í senn.

Húmor og bati

Margir þeir sem glímt hafa við geðrænar áskoranir af ýmsum toga hafa haft orð á því það geti verið mikil hjálp í því að hafa húmor fyrir lífinu og tilverunni. Á þessu létta og skemmtilega námskeiði er farið í gegnum atriði sem tengjast húmor, svo sem sögu húmors, hvernig sálfræðin greinir á milli ýmiss konar húmorsstíla og hvernig við getum nýtt húmor og hlátur í daglega lífinu.

Lengd: 2-3 skipti, tvær klukkustundir í senn.

Andleg heilsa um hátíðirnar

Þetta stutta námskeið fjallar um hvernig við getum fengið sem mesta gleði og ánægju út úr jólunum og leitt hjá okkur ýmsa streituvalda sem hátíðinni fylgja.

Lengd: 1 skipti, tvær klukkustundir í senn.

Fíkninámskeið

Á þessu námskeiði er fjallað um ýmiss konar fíknivanda en aðallega um áfengis- og lyfjafíkn. Farið er í gegnum muninum á ávana annars vegar og fíkn hinsvegar, fjallað um hugmyndir um hvernig fíknivandi þróast og samspil við ýmsar aðrar raskanir. Kynnt eru ýmiss konar meðferðarúrræði á Íslandi og hvernig þau virka. Þá er einnig fjallað um bata og farið í gegnum ýmsa þætti sem hjálpa í bataferli og styðja við áframhaldandi bata.

Ræktum eigin garð

Á þessu námskeiði verður farið í gegnum ýmsar leiðir til að hlúa að eigin þörfum og rækta með sér aukna mildi og þolinmæði í eigin garð. Kynnar verða æfðingar og aðferðir sem nemendur geta nýtt sér dags daglega og farið í gegnum rannsóknir á áhrifum þess að rækta með sér aukna vinsemd í eigin garð. Hagnýtt námskeið sem nýtist öllum vel, sérstaklega þeim sem eru með harðan innri gagnrýnanda og hætta til að rífa sig niður.